mánudagur, september 18, 2006

Beðið eftir 2011?

Samfylkingin er að skapa sér stöðu sem veitir ýmsa möguleika. Flokkurinn á nú kost á að stilla upp nýju fólki í oddvitastöður í þremur kjördæmum. Jón Baldvin og fleiri hafa kallað eftir því að gerð yrði breyting og stillt upp verkfæru fólki og fólki sem nyti trausts. Jóhann, Rannveig og Margrét hafa nú skapað jarðveg fyrir þessa endurnýjun. Ef vel tekst til gæti það eflt Samfylkinguna og gert hana ferskari valkost fyrir kjósendur og máð af henni gamla allaballastimpilinn.

Á sama tíma er staðan önnur í Framsóknarflokknum. Í dag er ekki raunhæft að ætla flokknum meira en sjö til átta þingmenn næsta vor. Eins og málið lítur út í dag verður aðeins endurnýjun í Reykjavík norður. Þar er búist við að nýr formaður hasli sér völl í stað þess gamla, og þá á kostnað nýjustu og ferskustu þingmanna flokksins, Guðjóns Ólafs og Sæunnar. Það er svo annað mál að þingsæti í Reykjavík norður er sýnd veiði en ekki gefin fyrir formanninn eins og staðan er nú.

Mér finnst líklegra en hitt að framsóknarmenn verði utan ríkisstjórnar á næsta kjörtímabili. Þingflokkur þeirra í stjórnandstöðu yrði að mestu skipaður þeim þrautreyndu stjórnmálamönnum sem eru í oddvitasætum flokksins nú, og vanari ríkissjórnarsetu en stjórnarandstöðu. Í dag er fátt sem bendir til þess að Framsóknarflokkurinn hafi afl til að skila ungu, öflugu fólki eins og Páli Magnússyni, Birni Inga Hrafnssyni, Sæunni Stefánsdóttur og Guðjóni Ólafi Jónssyni til frambúðar inn í landsmálapólitíkina fyrr en í fyrsta lagi árið 2011. Ætli þau verði flest ekki búin að snúa sér að einhverju öðru þegar þar að kemur?

Engin ummæli: